Hnignunarspegill mannkyns
Halló!
Ég hefi verið klukkaður. Ég ætla að stela sérstaklega sniðugum punkti frá Risanum sem ég rak augun í í hans klukk-svari. Ég set þann punkt nr. 1.
1. Ég hef aldrei farið í ljósabekk og veit ekki hvernig slíkt skrapatól lítur út!
2. Ég gegni nú vafasömu embætti sem er kallað í daglegu tali ,,kennari". Ég er ekki viss um að orðið skýri á nokkurn hátt hvað felst í þessu embætti. Ég efast um að nokkur maður viti almennilega nú til dags hvað felst í starfinu í raun og veru.
3. Ef ég er syndugur maður (aðrir verða að dæma um það) hef ég nú að undanförnu unnið hörðum höndum við að bæta fyrir syndir vorar með því að gefa samfélaginu ófáar vinnustundir.
4. Ég passa e.t.v. fullvel við staðalímyndina ,,neikvæður og vinstrisinnaður kennari". Þó vil ég benda á að ég er ekki enn ,,lentur" miðað við úthugsað og snilldarlegt plan mitt varðandi framtíðina.
5. Ég er sérstaklega heppinn með fólkið í kringum mig (kærustu, vini, fjölskyldu, kunningja...). Það er á áætlun að gefa því meiri gaum þegar um hægist. Ég verð líka að gera það áður en langt um líður, annars verð ég bráðkvaddur.
Ég má ekkert vera að þessu frekar en öðru og segi þetta gott í bili! Að lokum ætla ég að stela þeirri hugmynd frá Konna að klukka stjórnmálamenn landsins. Það væri t.d. gaman að heyra Dabba krull útskýra þátt sinn í sápuóperunni ,,Baugsmálið mikla".
Bless!
Halló!
Takmörk fyrir öllu?Já sennilega...flestu allavegana. Ég er amk. þeirrar skoðunar að þegar menn komast á óskilgreint hámarksstig heimskunnar hætta menn að vera algerlega óþolandi. Þá er nefnilega hægt að hlæja að þeim. Þeir hætta að vera ,,óþolandi hálfvitar" eða eitthvað í þá áttina, og verða meira svona ,,heimskir kjánar", eða kannski ,,bjánagrey".
Bush kallinn hefur orðið þeirrar vafasömu gæfu aðnjótandi að komast í flokk heimskra bjánakjána, að mínu mati amk. Hann telur skynsamlegt að hafna þróunarkenningu Darwins og hætta að kenna börnum slíka þvælu í skólum Bandaríkjahrepps. Þetta er auðvitað hlægilegur kjánabjánaskapur.
Það er þó eitthvað við þetta sem vekur smá ugg í brjósti mér...kannski það að þessi kjánabjáni er valdamesti maður heimsins..??
Bless!
Halló!
Sérstæður árangurÉg lá fyrir framan sjónvarpið rétt áðan og horfði á Skjá Einn. Nýr þáttur sem ber Séð og heyrt-nafnið ,,Sjáumst með Silvíu Nótt" var að hefja göngu sína. Þrem sekúndum eftir að þátturinn byrjaði mátti ljóst vera að Silvía Nótt hafði slegið hraðamet í því að sanna það fyrir sjálfum sér og öðrum að hún væri fífl, og/eða alveg sérstaklega leiðinleg.
Þar sem ég er afar sanngjarn maður gaf ég Silvíu séns og gaf henni 27 sekúndur til að sýna fram á að fyrrnefnd niðurstaða mín um hana byggði á misskilningi - að hún hafi aðeins verið að þykjast og leikhæfileikar hennar hafi blindað mig.
Neibb. Það tókst Silvíu ekki á þessum 27 sekúndum. Til hamingju Silvía - þú átt hraðamet sem erfitt verður að bæta. Nú getur þú án vandræða haldið því fram að þú sért góð í einhverju!
Bless!
Halló!
Mannræfillinn..
Það er sorglegt að fylgjast með mönnum fremja fádæma heimsku á opinberum vettvangi.
Það er ekki hægt annað en að vorkenna mannræflinum honum Gunnari Örlygssyni. Hann reiðir greinilega ekki vitið í þverpokum.
Ég vona að blessaður kallanginn finni starf við sitt hæfi eftir næstu kosningar. Vonandi verður það starf þess eðlis að hann geti ausið úr skálum reiði sinnar án þess að eiga á hættu að bera biturleika sinn á borð fyrir almenning með opinberum heimskupörum.
Einnig vona ég að sjálfstæðisflokknum svelgist á bitanum í kapítalískri græðgi sinni...
Bless!
Halló!
Í leit að lagi
Mig grunar sterklega að ég sé manískur maður – semsagt ekki alltaf alveg í ,,balance”. Ef svo er má segja að ég þjáist af geðhæð þessa stundina.
Ég er að leita að lagi, eða verki, eftir einn af þessum klassísku snillíngum. Það gengur alls ekki vel. Það hefur hins vegar kveikt margar góðar hugmyndir hjá mér...
Ég hef niðurhalað talsverðu magni af alls kyns dóti eftir hina og þessa kalla, Vivaldi, Beethoven, Mozart, Grieg ofl. Ég hef ekki enn hitt á rétta lagið.
Flest af þessu er að mínu mati rusl. Það sem stendur klassískri tónlist fyrir þrifum er þetta blessaða fiðluvæl. Með smá áherslubreytingum er vel hægt að gera snilld úr þessu.
Ég hef því ákveðið að gerast tónsmiður þegar ég verð orðinn fullorðinn. Ég mun aðeins hafa 1, mestalagi 2 fiðluleikara í mínum verkum. Hins vegar sé ég fyrir mér heila hrúgu af sellóleikurum. Ég hvet alla tónlistarmenn sem nú eru í námi að skipta yfir í sellóið, það mun borga sig. Sellóin eru nefnilega málið. Í þeim býr dramað og dýptin. Ég hugsa að venjulegur rafmagnsbassi gæti spilað vel inn í og slegið grunn-bassatóninn. Að sjálfsögðu mun ég hafa trommuleikara, gamlan rokkara sennilega.
Þetta verður gargandi snilld. Ég tek þessa gömlu kalla í nefið! Sýni þeim hvernig á að gera þetta. Ég mun verða aðalkallinn í endursköpun klassískrar tónlistar í heiminum. Fyrsta verkið mun vera hádramatískt og bera nafnið ,,Óðurinn til dauðans”. Það er augljóslega stæling á ,,Óðurinn til gleðinnar” eftir Mozart.
Ég fékk einnig annars konar hugmynd sem ég ætla að framkvæma líka - nema ef ske kynni að búið sé að því? Ég ætla að búa til myndbönd við þau klassísku verk sem eru snilld. Ja, eða við hluta af þeim a.m.k. Ég hef þegar hugsað út hvernig myndbandið við ,,Sumar”- hluta Árstíðanna eftir Vivaldi á að vera. Það verður mikil fegurð.
Ég er viss um að Vivaldi kallinn verði ánægður með myndbandið. Hann hefði örugglega viljað geta útbúið myndband við lagið sitt, kallanginn, ef hann hefði haft færi á því á sínum tíma. Hann hefur vafalaust séð þetta allt saman fyrir sér í myndum, ekki bara tónum og nótum.
Ég hlakka innilega til þess þegar ég hitti kallinn hann Vivaldi hinum megin við móðuna miklu eftir cirka 42-45 ár. Þá verður hann búinn að frétta af myndbandinu mínu frá einhverjum sem fylgist vel með hérna megin, en er hinu megin. Honum mun örugglega þykja vænt um að ég skyldi hafa útbúið myndband við lagið hans, fyrst hann gat það ekki sjálfur.
Þegar við Vivaldi hittumst getum við rætt um klassíska tónlist og myndirnar í henni. Ég mundi spila fyrir hann verkin mín og hann gagnrýnt þau með sínum 17-18. aldar gleraugum. Við gætum svo fengið okkur rauðvínsglas og tekið eina skák.
Bless!
p.s. Mynd af gaurnum..
http://www.hi.is/~kariv/index7.htm
Halló!
Ég fór út að ganga...
Ég mætti þremur einstaklingum sem voru líka úti að ganga. Þessir einstaklingar áttu það sameiginlegt að þeir höfðu hund í spotta með í för. Ég velti fyrir mér hvort maðurinn eða hundurinn hafi haft meira gagn af göngutúrnum.
Mannskepnan er svo frávita heimsk...og löt. Hundurinn efast örugglega ekki um gildi göngutúrsins til andlegrar og líkamlegrar upphafningar. Um hugmyndir eigenda þeirra til þessa málefnis skal ég ekki fullyrða neitt.
Ég fór út að ganga einsamall. Ja, eða hvað? Ef til vill má orða það svo að ég hafi farið út að ganga með hundinn í sjálfum mér. Mikil þörf á því og viðraðist all-nokkuð úr honum.
Ég ætla að gera þetta aftur við tækifæri... ef ég nenni.
Bless!
Halló!
BRJÁLAÐUR yfir þessu!!!Ég hef verið að leita mér að vinnu....
Ég er furious, krónískt snartrylltur! Ég næ ekki upp í nefbroddinn á mér fyrir reiði.
Ég held að það megi með sanni segja að ég hafi átt við námsleiða að stríða síðan c.a. í 9. bekk. M.ö.o. nokkurn veginn síðan ég man eftir mér! Kannski ekki námsleiða á gríðarlega háu stigi, en samt.
Ég er ekki laginn með kúbeinið, kann ekki á skrúfjárn, þekki ekki sportbíl frá lödu...o.s.frv... Eftir því sem tíminn leið í framhaldsskólanum sá ég betur og betur að ég yrði að læra eitthvað, og sá svo sem að ég gæti það alveg.
Með gríðarlegri þrjósku hef ég lokið samanlagt 8 ára námi umfram grunnskólaskylduna. 8 ÁR! (jafnvel 9, eftir því hvernig það er reiknað..)! Það er klikkun. Það má gera ráð fyrir því að sá tími sé 10% af allri helvítis ævinni. Djöfuls bull.
Nú er ég með BA próf sem ég fékk afhent við virðulega athöfn í bíóinu sem kennt er við Háskólann. Eftir nokkrar vikur get ég svo titlað mig sem kennara.
...leita mér að vinnu sem kennari semsagt...nánar tiltekið sem íslenskukennari. Nú hef ég (stoltur og ánægður, útskrifaður og flottur) farið í allmarga skóla, lagt inn umsóknir og rætt við skólastjórnendur. Og hvað fær maður í andlitið?? ,,MA-próf æskilegt” HVAÐ, HA?? ,,Já..viðbrögðin hafa nú verið rosalega góð...en gott að fá umsókn samt”. GOTT AÐ FÁ UMSÓKN SAMT??? HA? ,,Það má búast við því að einhverjir sæki um sem hafa meiri menntun...” MEIRI MENNTUN HVAÐ??? BA- og kennsluréttindanámið, sem hefur sogað mesta skemmtanagildið úr besta hluta ævinnar, heil fjögur ár, er skyndilega engin menntun til að tala um!! Hvaða helvítis vitleysa er þetta eiginlega!!!? BA próf og kennsluréttindi er einmitt og akkúrat það sem þarf til að verða kennari! Það er kennarastéttin!!! Þeir sem eru með MA og doktorspróf og eitthvað slíkt, þeir eiga andskotann ekkert að vera að kenna! Þeir geta bara verið að búa til orðabók eða einhvern fjandann! Ekki rífa af okkur kennurum störfin. Ég er viss um að ég get gersamlega rassskellt einhvern mannfælinn doktor sem kennari. Það er hlægilegt að halda því fram að doktor (sem er sérfræðingur um ,,bikarinn” sem tákn í ljóðum... bleh...zzzzzz) sé eitthvað betri kennari! COMMON!
Hvað verður um þessa háskólagengnu kennara sem virðast ekki lengur vera hæfir kennarar? EIGUM VIÐ BARA AÐ FARA AÐ SKEINA FÓLKI Á ELLIHEIMILINU GRUND OG FARA MEÐ VÍSUR Í LEIÐINNI? JÁ, 1% KAUPHÆKKUN EF ÞÚ FERÐ MEÐ VÍSUR MEÐAN ÞÚ BAÐAR EÐA SKEINIR!! Ekki það að ég hafi eitthvað á móti því göfuga starfi að hugsa um gamla fólkið. Háskólapróf er hins vegar varla skilyrði eða...? Er Elliheimilið Grund kannski farið að auglýsa ,,BA- próf æskilegt” ???? Og vernduðu vinnustaðirnir ,,Æskilegt að umsækjendur hafi stúdentspróf” ???
Og hvað eiga menn við með orðunum ,,gott að fá umsókn SAMT?” Semsagt; ,,þú átt ekki séns en gott að fá pappír til að krota á..svona ef maður þarf að taka niður símanúmer eða eitthvað” ....?? Eða hvað?
Ég ætla í það minnsta að passa mig á því að sækja um á klósettpappír í næsta skóla. Þeir geta þá gripið í þetta ef illa stendur með klósettpappírsmálin í skólanum...
Bless!