<$BlogRSDURL$>
Hnignunarspegill mannkyns
Tuesday, January 27, 2004
  Halló!

Einu sinni fyrir langa löngu voru þrjár gyðjur, Afrodita, Aþena og einhver ein til viðbótar. Svo var ein önnur sem kom með epli til þeirra þriggja og sagði að sú fegursta fengi eplið. Þá var haldinn fegurðarsamkeppni. En því miður vildi enginn guð dæma í keppninni. Loks fékkst þó mennskur maður að nafni Paris til að dæma. Afrodita mútaði honum til að dæma sér sigurinn með því að lofa honum fegurstu konu í heimi, Helenu fögru. Gallinn var sá að hún var gift voldugum manni, svo Paris þurfti að ræna henni og færa með sér heim til sín til Trojuborgar. Það fannst volduga kallinum og vinum hans ekki sniðugt og réðust þeir á Trojuborg til að frelsa hina fögru Helenu. Það stríð hefur gjarnan verið kallað Trojustríðið og fjallar Illionskviða um það.

Konan með eplið hefur gjarnan verið kölluð Þrætugyðjan, og eplið fræga þrætuepli. Enda er oft sagt ekki ætla ég að gera þrætuepli úr þessu", eða álíka. Hugsanlega mætti víkka þetta svolítið út, t.d. væri flott að segja "ég fer nú ekki í fegurðarsamkeppni við þig útaf þessu" þegar lítilvægur og/eða heimskulegur ágreiningur kemur upp....

Úr þessari sögu má lesa þann boðskap að fegurðarsamkeppni sé afar heimskuleg samkeppni. Sá sem er ekki heimskur sér það og hlýtur að taka undir það, enda smekkur manna misjafn eins og mennirnir eru margir...

Bless!



troja
Afrodita, Helena, Paris, Aþena,  
Sunday, January 25, 2004
  Halló!

Ég er mikið að velta því fyrir mér að blogga um vanþakklæti manneskjunnar og hvernig mikill vill sífellt meira. Einnig ef ég hugleitt að blogga um mismunandi og misgáfulegar skilgreiningar á frelsi. Það kemur líka til greina að tala um ótrúlega fjárhagsblindu tannréttingatannlækna, en þeim þykir sjálfsagt að hent sé til þeirra svona 30-300 þúsund kalli svona við og við nánast til gamans. Mér datt líka í hug að blogga um undraskotslög og mismunandi gerðir þeirra.

..og nú í þessu augnabliki datt mér í hug að blogga um mannhelvítisfífldónadjöfulsrassgatsógeðið sem taldi hugsanlegt að "overwrite" væri góð leið til að leiðrétta pikkvillur....(/&%$##$%&/(

En þið megið bara velja um hvað ég blogga næst...kjörkassinn er opinn...

Bless! 
Wednesday, January 21, 2004
  Halló!

Káraorðupistill!

Í dag ætla ég að útbíta þrem Káraorðum. Káraorðurnar þykja af fræðingum bera af sér álíkan þokka og virðingu og Fálkaorðan, ef ekki meiri...

Í fyrsta lagi fær Hjalti bró Káraorðuna fyrir frábært nafn á nýju þolmyndina. Nafnið er "Þolklámmynd", þykir Hjalta nýja þolmyndin hreinlega dónaleg móðgun við íslenskt mál. Til hamingju Hjalti!

Í öðrulagi fær Ragnar Risi einnig Káraorðuna. Hann fær hana einnig fyrir afar netta nafngift á nýju þolmyndinni. Nafngiftin er stutt og laggóð, einfaldlega "Óþolmynd". Nánari útskýring gæti verið á þessa leið; hin nýja óþolandi þolmynd. Til hamingju Raggi!

Í þriðja lagi fær Diddi bró Káraorðuna. Hana fær hann fyrir frábæran bloggpistil um nenni. Hvet ég alla eindregið til að smella á tengslin hér til hægri, "Diddzer brósi", og lesa pistil hans. Í stuttu máli reifar hann þá hugmynd sína um það að hver einstaklingur vaknar á morgana/daginn með visst mörg "nenni". Mikið er til í þessu, hver kannast ekki við það að sitja fyrir framan sjónvarpið á kvöldin og nenna ekki útí sjoppu útaf því að nennin eru einfaldlega búin fyrir daginn?? Til hamingju Diddi!

Þrefalt skaðræðisóp fyrir drengjunum þrem!

Bless! 
Tuesday, January 20, 2004
  Halló!

Það var sagt mér svoldið í skólanum í dag. Það var sagt mér það að nýja þolmyndin komi til með að vera viðurkennd og glæsileg leið til að mynda setningu áður en langt um líður. Eða sem má einnig kalla hina nýju germynd, mynduð með gervifrumlaginu "það" ásamt hjálparsögninni "að vera". Jamm..það var sagt mér það í dag.

Nú er til gott orð yfir þágufallsásókn landans, þ.e. þágufallssýki. Okkur vantar gott orð yfir nýju þolmyndinina. Kannski "nýja óþolandi myndin" eða kannski "barnaþolmyndin"...eða kannski "það var- sýkin" Eða "nýja gersamlega ómögulegamyndin"... ...Veit ekki...einhverjar hugmyndir??

Bless!

 
Monday, January 19, 2004
  Halló!

Ég er besti vinur þinn!
Mér leiðast almennt auglýsingar. Meðal annars þessi. Ég sé ekki betur en þarna sé stelpa og strákur í góðum gír bara í partý..slummast og sonna. Svo draga þau hvort annað afsíðis. Svo er meira slummast. Þau leggjast svo uppí rúm og ef maður er sæmilega greindur og getur lagt saman tvo og tvo kemur út svífandi bóner. Það virðist hinsvegar af einhverjum ástæðum hræða stúlkuræfilinn. Kannski var hún búin að gleyma því að hún er kaþólsk eða eitthvað svoleiðis...

3 af hverjum fjórum nauðgurum eru vinir fórnarlambanna. Punktur.

Ég veit ekki alveg hvernig maður á að skilja þessa auglýsingu. Hvað er verið að segja okkur?? Eftir talsverða umhugsun hef ég þó komist að niðurstöðu.

Stelpur: Ef þið eigið einn vin eru 25% líkur á því að það sé einum of mikið. Ef þið eigið 2-3 vini eruð þið beinlínis að bjóða uppá ógn og skelfingu. Ef þið eigið 4 vini þurfið þið MJÖG nauðsynlega að losa ykkur við einn. Ekki nóg með það heldur þurfið þið að sýna mikið innsæi og losa ykkur við þann rétta. Ef þið eigið 5-7 vini þurfið þið mögulega að losa ykkur við tvo..allaveganna ef þið eigið 8 vini.

Strákar: Við gætum reynt að koma til móts við vinastelpuna okkar. Ef við erum t.d. fjórir þurfum við virkilega að setjast niður saman og kryfja málin...leggja kannski próf fyrir hvurn annan og sonna..svo væri etv hægt að hafa svona Survivor-kosningu að lokum...einn rekinn út..

Jamm...drífið í þessu fyrir næstu helgi..

Bless! 
Friday, January 16, 2004
  Samkeppni um nafngift!

Halló!

Svo virðist vera að vinahópur okkar er á góðri leið með að leggja alnetið gersamlega undir sig. Er það vel og vonandi getum við í sameiningu bætt andlegt ástand sauðsvarts almúgans hér á Ísalandinu fagra!

Ekki er örvænt um að ég og mínir rekum leynilega heimsvaldayfirstefnu, þar sem hápunkturinn er vissulega sá að velta hryðjuverkamanninum og efnavopnaeigandanum Djords Búss úr stóli. Það verður að vísu ekki strax þar sem Dóni Römssíld og aðrir standa í vegi..

Fjölskylda mín hefur þegar fært út kvíarnar og eru norðurlöndin að heita má komin undir stjórn okkar. Hjalti bró hefur lengi staðið í hatrammi baráttu við Norðmenn, en virðist eygja fullnaðarsigur á skíðaköppum og öðrum Norðmönnum í gamaldags lopapeysum. Baráttan var þó tvísýn á tímabili og fór karl faðir til Noregs um tíma honum til fulltingis. Hann er nú hinsvegar mættur til Danmerkur og svo virðist sem bjórslompaðir danirnir verði innan við mánuð að lúta í lægra haldi fyrir honum. Imba systir fór svo til Svíþjóðar og tók sálfræðingssoninn Axel með sér til aðstoðar. Svíar eru nú margklofnir í allra þjóða kvikindi og ætti þeim því ekki að vera neitt að vanbúnaði með að sameina brotin undir sína/okkar stjórn. Sjálfur fór ég í það að tala færeyinga til og beitti til þess bókmenntafræðilegum aðferðum, enda nánast með BA próf í færeysku. Það reyndist létt verk og löðurmannlegt enda færeyingar dauðþreyttir á fullum röflandi dönum. Þá er bara Finnland eftir...

Það er því greinilegt að samtök mín og minna eru raunveruleg og öflug. En hinsvegar af einhverjum ástæðum hefur engum, hvorki mér, minni fjölskyldu eða vinum, dottið í hug nein sniðug nafngift á samtökin. Mæli ég með að lesendur leggi höfuð í saltsýru og láti sér detta í hug eitthvað snjallt og sniðugt.

Mér dettur í hug, þar sem kolkrabbinn er dauður, að lífga nafngiftina við og nota á samtök okkar. Gallinn er vissulega sá að þá mætti halda að alvarleg hægri-slagsíða sé á samtökunum..sem yrði vissulega álitshnekkur mikill. Kannski er Margfætlan betra?

En..orðið er laust!

Bless! 
Thursday, January 15, 2004
  Halló!

Ragnar risi og í kjölfarið Konni fjölluðu um skelfilega landafræðikunnáttu ungu kynslóðarinnar. Almennri heimsku sauðsvarts almúgans og lélegri kennslu í skólum var kennt um.

Ég vil benda á það að hugsanleg orsök dapurrar landafræði er almenn leti og áhugaleysi, sérstaklega hinna yngri. En afhverju þjáist fólk svona voðalega af leti og áhugaleysi? Jú, það er útaf því að hnignun mannkyns er komin á alvarlegt stig. Ekki er örgrannt um það að hnignun mannsins stafi af því að við höfum það einfaldlega of gott. Þegar mannfólkið þarf ekki að hafa neitt fyrir neinu, fæðist með silfurskeið í munni, staðnar það. Það hefur bara enga ástæðu til þess að vesenast í því að skoða, kanna, fræðast og þar fram eftir götunum.

Fyrrum Rómaveldi og fall þess rennir stoðum undir þessar hugleiðingar. Þeirra líf var í raun orðið fullkomið í vissum skilningi. Höfðu það ansi gott, þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að komast af. Í stuttu máli sagt þurftu þeir ekki að bæta sig. Það endaði svo með því að menn sátu í veislum árum saman..átu og drukku þar til þeir ældu og sofnuðu...vöknuðu og héldu áfram. Einnig virðist kynhneigð þeirra hafa brenglast allillilega undir lokin...

Eins og sumir vita má eygja leti í mínu fari. Rökfræðilega séð má þó segja að hnignunin í mér, þ.e. letin, sé ekki á jafn alvarlegu stigi og hjá mörgum öðrum. Ég nefnilega veit hvar Egilsstaðir eru..jafnvel hvar Raufarhöfn er. Það má því segja að mannþróunarlega séð er ég nokkuð heppinn.

Ég verð því að viðurkenna að ég get ekki staðsett mig fyrir utan hnignunarhring mannkyns – staðið fyrir utan með gagnrýnisaugnaráði og skoðað samfélagið. Ég verð því að gera mér það að góðu að gagnrýna innan frá eins og sannur póstmódernismi. Ég kvarta svo sem ekkert undan því, enda er móðins og jákvætt og ber vott um bókmenntafræðilegt innsæi að vera póstmódernismi nú á dögum...

Bless!
 
Wednesday, January 14, 2004
  Halló!

Þetta er hnignunarspegill mannkyns. Því mætti halda að allt sem hér verður skrifað komi til með að innihalda alvarlegar og hástemmdar hugleiðingar um hnignun og spádóma um Ragnarök. Svo er ekki. Það er vegna þess að ég er svo yndislega bjartsýnn og víðsýnn að eðlisfari..eða svo mundi Guðni hinn rauði orða það.

Eins og ég greindi frá í eldri pistli er ég einkar næmur á bókmenntafræðilegan tíðaranda og af sérstæðri innlifun og þrótti má segja að menningarlega séð er ég afar móðins (fyrir þá fjölmörgu íslendinga sem eru betri í ensku en íslensku er ég að reyna að segja að ég er inn, ekki út/out).

Við lifum á póstmódernískum tímum. Í skrifum mínum má augljóslega koma auga á afar sterk póstmódernísk áhrif. Að vísu hefur engum í heiminum tekist að skilja hvað felst í póstmódernisma að nokkru ráði..en það eina sem ég veit er það að póstmódernisminn gagnrýnir innanfrá...dæmi um það væri maður sem bloggar til þess að gagnrýna bloggmenninguna...

Því má segja að grín, bull og skítkasts-pistlarnir mínir sem hafa birst virðast ekki vera í neinum takti við nafnið á blogginu...en útfrá póstmódernísku sjónarmiði má þó renna stoðum undir hið gagnstæða..

Það stendur þó til að ég riti pistla sem snúa beint að yfirskrift bloggsins. Sá fyrsti er tilbúinn í höfði mínu og mun birtast hér á blogginu mjög svo bráðlega.

Sá pistill mun fjalla um hnignun mannkyns í tengslum við leti, auk þess sem ég tengi póstmódernisman, hugleiðingar mínar og persónulega/mannþróunarlega galla saman...

Spennandi!

Bless!

 
Tuesday, January 13, 2004
  Um Dísel-hnakka

Blessuð og sæl!

Það eru rosalega fáir sem maður sér í dag í Dísel-gallabuxum. Muniði kannski ekkert eftir þeim?? Þessum þarna sem er búið að gera skítugar fyrir mann. Einmitt. Mér skilst að þeir sem eru í Díselgallabuxum í dag séu bara gersamlega “out”. Alveg vooonlausir. Ekkert smá eftirá. Bara svona eins og þroskaheftir einstaklingar, mörgum ááárum eftir á sko!

En hvernig stendur á því? Eru þetta ekki flottar buxur? Voru þetta bara flottar buxur, eru það bara ekki lengur?? Já einmitt...þannig.

Ég skal segja ykkur það að um daginn var ég einn heima í myrkrinu að kveldi til að horfa á sjónvarpið. Ekki frásögum færandi nema útaf því að allt í einu fann ég hvernig yfirþyrmandi birta helltist yfir mig af himnum ofan. Ég hafði fengið hugljómun! Ég heyrði hola rödd segja hátt og snjallt: “ÞÚ HEFUR SÉÐ Í GEGNUM ÞETTA”. Svo féll ég í hálfgert öngvit, en röddin hélt áfram að hvísla að mér afar merkilegum hlutum. Eitt af því sem röddin sagði mér snéri einmitt að dísel-gallabuxum.

Málið er nefnilega það, að dísel gallabuxur voru nefnilega aldrei flottar. ALDREI. Ekki einu sinni allra fyrst. Vinsældir díselgallabuxna byggðust upp á TRIXI!! Ég er ekki að ljúga, ég er ekki að ýkja!
Þannig var að framleiðendur Díselgallabuxna fengu þá frábæru hugmynd að gera þær svona kúkugar, svona pínu spes, og borguðu svo frægu og fallegu fólk til að “segja” öðrum, m.a. gegnum auglýsingar, að þetta væri flott. Aðaltrixið var þó etv fólgið í því að fallega fræga fólkið sagði það aldrei beint út, var bara svona í góðum gír í skítugu díselgallabuxunum sínum... og fyrr en varði var fullt af svona ófrægu venjulegu fólki farið að þykja skítugu buxurnar sem fallega fræga fólkið var í rosalega flottar, rosalega spes. Og venjulega fólkið fór útí búð og keypti sér svona dísel, til að vera flott, til að vera eins og fræga fallega fólkið. Samt svona eiginlega bara útaf því að díselgallabuxurnar eru svo flottar. Það skipti sko engu máli þó venjulega fólkið sæi að skítugu díselgallabuxurnar kostuðu 15 þúsund, aðrar tegundir 3-5þúsund. Venjulega fólkið vildi vera flott, fallegt eins og fræga fólkið. Samt eiginlega bara útaf því að því fannst dísel svo flottar gallabuxur.

En hvað gerðist svo?? JÚ, ég sé í gegnum þetta eins og röddin sagði. Það sem gerðist svo var það að allt í einu voru svo rosalega margir klæddir í skítugar díselgallabuxur, að allir voru “eins og fræga og fallega fólkið”. En það getur ekki verið. Það passar ekki. Af tveim ástæðum: 1) Gunna veit að vinkona hennar, Sigga, er ekki fræg og falleg þó hún sé í díselgallabuxum. Gunna áttaði sig smátt og smátt á því að stelpan X áttar sig á því að Gunna er ekki endilega ein af fræga og fallega fólkinu, jafnvel þó svo hún sé í díselgallabuxum. 2) Hið raunverulega fræga og fallega fólk var allt í einu, öllum að óvörum, hætt að ganga í skítugum dísel-gallabuxum...

Skítugu díselgallabuxurnar eru því ekki flottar lengur. Engum finnst það. Og eins og ég sagði áðan, þær voru í raun aldrei flottari en hvaða gallabuxur sem er. Venjulega fólkinu sem fannst skítugu dísel-gallabuxurnar flottar, fannst það í raun aldrei! Það var alger sjálfblekking, bara bull!

Hugljómun sem þessa hefðu margir gott af að fá. Það mundi spara mögulega 10 þúsund krónur í hvert sinn sem kaupa á buxur. Sennilega meira, því mögulega væri hægt að gjörnýta gallabuxur sem verða ekki forjótar allt í einu, af fyrrgreindum ástæðum. Ég er mjög feginn því að eiga ekki niðurgrotnandi rándýrar nýlegar díselgallabuxur í bunkum í skúffunni minni....

Einkum eru það hnakkar sem þurfa á svona hugljómun að halda. FM-hnakkar. En því miður þýðir ekkert að segja svona, þýðir ekkert að koma með svona ábendingu, því það tekur þetta enginn til sín. FM-hnakkar er nefnilega ótrúlega stór hópur fólks sem er samt í raun ekki til. Þannig er að aðeins 1% hnakka gera sér grein fyrir því að þeir eru mögulega hnakkar. Af þessu 1% eru svo aðeins 1% sem þora að viðurkenna það....

Sæl og blessuð!
 
Monday, January 12, 2004
  UM STURTUHAUSA:

Komiði sæl.

Svo eru mennirnir misjafnir, sem þeir eru margir. Það sannaðist enn einu sinni um daginn er ég komst að því að fólk hefur mismunandi smekk á sturtuhausum.

Einu sinni hélt ég að allir vildu blotna þegar þeir fara í sturtu. Ég hélt að allir vildu hafa það notalegt og sonna...þrífa sig vel og vandlega og stíga hreinir og fínir úr sturtunni.

Svo er ekki. Sumir vilja hafa bununa úr sturtuhausnum á 130-180 km hraða (innifalið eðlisfræðihugtakið um hröðun, miðað við mann sem er 150-200 cm á hæð og sturtuhausinn í hæðinni 230 cm..). Þannig eru sumir sturtuhausar, og hef ég hingað til dæmt slík apparöt sem biluð..eðlilega. Nefnilega þegar vatnið dynur á manni á slíkum hraða er engin von til þess að maður blotni...frekar að maður slasist alvarlega. Vatnið hrekkur af manni eins og steinar og fellur ónýtt niður til sjávar. Þar af leiðandi getur ekki verið að þeir sem aðhyllast slíka sturtuhausa þrífist nokkuð svo talandi sé um... Við þetta má bæta að slíkir sturtuhausar beina hraðbununi skáhallt niður og stærsti hluti vatnsins fer einfaldlega framhjá manni...

Því hef ég hugsað mér að rannsaka eftirfarandi hluti hjá fólki sem aðhyllist kraftbanasturtuhausa:

1. Akkuru að taka með sér handklæði?
2. Því að versla sjampó?
3. Því kemst fólk almennt óskaddað úr sturtu?
4. Eru tengsl á milli s&m klúbbsins og þessara aðila?
5. Hlýtur ekki að vera sífelld ólykt af þessu fólki???
6. Að lokum: Hvað er til ráða?

Hef ég þegar sótt um rannsóknarstyrk til TSHC í USA. TSHC= Ðe sjáver end hellð kompaní í Bandaríkjunum.

Veriði sæl.  
  Örpistill tileinkaður SNILLíNGI:

Konráð Jóhann nokkur, góðvinur og meðleigjandi (ég endurtek meðleigjandi, ekki sambýlismaður), fær fyrstu Káraorðuna hér á hnignunarspeglinum. Strákurinn sá tók sig til og pússaði spegilinn eins og óður væri. Birtist þá athugasemdakerfi,tenglapláss og teljari. Þrefalt skaðræðisóp fyrir Konna!!!





 
  SÍÐBÚIN PÆLING UM JÓL


Þegar jólin eru farin að nálgast eru ótrúlega margir sem virðast ætla að fara gersamlega yfir um. Og ég er að tala um fullorðið fólk. Fólk er farið að hlakka til jólanna í byrjun nóvember, ef ekki fyrr, en jafnframt að farast úr stressi. Það þarf nefnilega allt að vera fullkomið. Kaupa allt sem fyrst, má mikið vera ef matvælin eru ekki mygluð áður en jólin svo láta sjá sig. Þrífa þarf húsið með tannburstum, hátt og lágt. Baða köttinn og hundinn. Helst mála allt húsið. Hengja upp fleiri kílóin af jóladrasli. Og veit ekki hvað og hvað..
Mér er hinsvegar spurn; hvað er svona rosalega spennandi við jólin? Til hvers hlakkar fólk svona rosalega? Guð? JÁ! Tengist hann ekki jólunum eitthvað? Fólk hlakkar til þess að gleðjast með guði á afmælisdaginn hans!
Já einmitt... ÞAÐ TRÚIR ENGINN Á GUÐ Í DAG! Nema örfáir vitleysingar, nokkrir vottar jehóvar, biskupinn og Gunnar í krossinum. Jafnvel ekki Gunnar í krossinum; ég hef heyrt að hann hafi áttað sig á því að nú fer hver að verða síðastur til að græða á heimsku almennings hvað varðar guð og trú og þannig. Skilst að hann þiggi tíund, meðlimir krossins þurfa svo sem ekkert að borga honum tíund – nema þeir vilji stikna í helvíti.
Já það er varla guðstrúin sem er tilhlökkunarefni jólanna. Fólk trúir ekki á guð lengur. Það er hinsvegar alveg stórmerkilegt að það eru ekki nema svona 100 ár síðan fólk trúði almennt á guð. Árið 1900 var það bara Nítsé sem trúði ekki á guð, og hann reyndist svo bara vera geðsjúklingur. Eða hvað? Hann var reyndar geðveikur kallinn, en samt greinilega talsvert greindari en mannfólkið yfir höfuð; ÞAÐ HEFUR TEKIÐ MANNFÓLKIÐ 2000 ÁR AÐ FATTA ÞAÐ AÐ BÍBLÍAN OG ALLT ÞAÐ ER LYGI! HAUGALYGI! 2000 ÁR! Fólk er fífl...
Hvað er þá í gangi? JÓLALÖGIN? HEH! 1. Það er ekki til EITT skemmtilegt jólalag 2. Það eru alltaf SÖMU jólalögin ár eftir ár. Verða þau ekki svolítið þreytandi, ha? Er það ekki?? Pakkarnir? 1. Já, ef þú ert BARN. 2. Nei...ég er að tala um fullorðið fólk hérna.. Maturinn? Tja, já maturinn er sannarlega góður, en að bíða í mánuð eftir einni máltíð, common!
Ef ég er að gleyma einhverju er það varla þess virði að vera gersamlega út á þekju af tilhlökkun og stressi í mánuð eða meira!
En hvað gerist eftir jólin? Jú, áramótin. Gaman að þeim, ekkert vesen. Mögulega bjór og rakettur. Komið.
Hvað svo? ÞRETTÁNDIN! Og það sem er jafnvel ennþá undarlegra en fólk og jól, er fólk og þrettándin. Fólk er búið að bíða og bíða og bíða eftir jólunum, svo eru bara allir í góðum gír að éta hangikjet, fara á brennu og sonna á þrettándanum. Allir rosa hressir bara. HA, jólin búin, best að éta hangikjet og fara á brennu og fagna því að jólin skyldu nú loksins vera búin!! Jibbí!
Þetta þrettándafagn væri svosem ekki athugavert nema út af því að jafnvel þó svo að jólin séu ekkert til að míga á sig útaf, er þrettándin það svo ALLSEKKI! Berum þetta aðeins saman:
Jólin: svínahamborgarahryggur. Þréttándin: reykt hangikjet...vá frábært. Jólin: pakkar. Þrettándin: ja..kannski má fíra upp því sem þú gleymdir um áramótin í staðinn fyrir pakkana. Það sem er svo kannski aðalatriðið er: Jólin: jólalög, þrettándin: ÁLFA-BRENNULÖG!! STÓÐ ÉG ÚTÍ TUNGLSLJÓSI...DADDARA!! EF ÞAÐ ER EITTHVAÐ SEM ER LEIÐINLEGRA EN JÓLALÖG, ÞÁ ERU ÞAÐ ÞESSIR ANDSKOTANS ÁLFA-BRENNU-LÖG. HUH! Fólk bara í góðum gír, ýmist allt of heitt eða alltof kalt á brennu að hlusta á álfalög...og jólin búin! Jibbí, frábært! Djöfulsins vitleysa.
Og hver trúir á ÁLFA? Er það eitthvað skynsamlegra en að trúa á guð? NEI. Það eru helst börnin sem gætu hugsanlega mögulega haft gaman af einhverjum heimskulegum lögum um álfa og slík ævintýrafyrirbæri.
Reynið nú aaaðeins að velta þessu fyrir ykkur, ekki svífa bara um hugsunarlaust á einhverju rómantísku jólabóluskýi.
 
Friday, January 09, 2004
  Halló. Ég þjáist af hástemmdri heimshryggð. Vegna hræðilegs áreksturs milli blogg blogg blogg! og málnotkunar kemst ég sennilega aldrei að því hvernig skal blogga. Þið skiljið líklega ekkert hvað ég er að tala um, en ég fann heilan áfanga í H.Í., virtustu menntastofnun landsins, (fyrir utan það að hún er að falla úr hor vegna fjárskorts af hendi bláu og grænu kallanna...líkt og fé fellur úr ríðu eða eitthvað svoleiðis..) áfanga sem heitir blogg blogg blogg!. Í hann ætlaði ég, og rannsaka um hvurn andskotann sá áfangi fjallar. En tilviljun lífsins var mér ekki hliðholl að þessu sinni...

Ég hef verið svolítið í því að skrá mig í áfanga svona til að rannsaka um hvurn andskotann hann/þeir eiga að fjalla. Eitt sinn skráði ég mig í færeysku, og sótti ég tíma stíft og vel. Að vel athuguðu máli reyndist áfanginn snúast um færeysku...færeyskar bókmenntir...en samkvæmt nýjustu tölum hafa verið gefnar út í færeyjum um 542 bækur, f. utan símaskrána og bíblíuna, síðan talning hófst... Við lásum flestar í áfanganum.. Ástæðan fyrir þessum "fjölda" er sennilega, að ég held, sú að færeyingar samræmdu ekki stafsetningu sína fyrr en bara einhverntíma á hippatímabilinu. Þegar við íslendingar gerðum það (1125-1175) voru menn reyndar líka með sítt hár..en það var bara útaf því að þá voru ekki til nein skæri...

Einnig skráði ég mig á sínum tíma í áfanga sem bar nafnið forsetningar. Sá áfangi reyndist fjalla um forsetningar. Ekki grunaði mig að á bak við forsetningar leynist alveg nýr og spennandi heimur..að vísu með öllu óskiljanlegur. Það fannst/finnst kennaranum hinsvegar ekki...Mig grunar sterklega að hann, greyið, sé lokaður þar inní..svona eins og miðill sem er fastur í transdans...nema hvað að miðillinn getur þó fengið sér kaffibolla með framliðnum...kennararæfillinn situr sennilegast einn að brúsanum...

Því miður get ég ekki komist að raun um hvað blogg blogg blogg! fjallar um vegna umræddra slysfara... En stærðfræðikunnátta mín segir mér að þar sem forsetningar fjölluðu um forsetningar og færeyskan um færeysku, má leiða sterklega líkur að því með staðalfrávikinu 1,5 hektari, að blogg blogg blogg! fjalli um blogg.

Ég verð því að láta nægja að anda að mér tíðarandanum, láta bókmenntafræðilega næmni mína ráða ferðinni amk fyrst um sinn. Svona líkt og þegar Þórbergur ákvað að semja fútúrískar kveldstemmningar án þess að hafa haft minnstu hugmynd um hvað fútúrismi var...

Bless.
 
  Jesús minn og jóhannes! Ég bið hæstvirta lesendur afsökunar á því hvað það er langt síðan ég bloggaði síðast... 
Ég hefir ákveðið að taka þátt í blogg-bólunni miklu. Gott ef ég fer ekki og versla mér dísel-gallabuxur og það skítugar á morgun. Ég ráðlegg öllum að lesa ekki þetta blogg, enda verður það vafalítið hundleiðinlegt og neikvætt..eða svo munu grænu kallarnir vafalaust segja...

TENGLAR
Konni B.
Guðni hinn Græni
Guðni hinn Rauði
Risinn á í mökum við hús
Diddzerinn brósi
Skítkast frá Hjalla snillíngi
Jói varpar ljósi á allt og alla
Sjóræninginn Mr.Jones
Sá betri!
Baldur bloggar!


ARCHIVES
01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 /


Powered by Blogger Weblog Commenting by HaloScan.com