<$BlogRSDURL$>
Hnignunarspegill mannkyns
Wednesday, March 31, 2004
  Halló!

Yfirmáta undrandi

Rak augun í forsíðu fréttablaðsins í gær. Þar var frétt sem ég (og flestallir aðrir held ég) er hissa á að hafa ekki séð fyrr. Greint var frá sívaxandi atvinnuleysi hagfræðinga og viðskiptafræðinga. Ef ég man rétt hefur atvinnuleysi þeirra sexfaldast eða svo undanfarin nokkur ár - nú er hátt í hundrað fræðingar atvinnulausir hvurn mánuð að meðaltali.

Ég ætla hreinlega að draga það í efa að skilgreina ætti þessa frétt sem frétt. Hefði maður ekki getað sagt sér þetta sjálfur?! Þetta er álíka mikil frétt og "Mannskepnan er yfirleitt með tvö augu og tvö eyru.." Jæja...og þó..tölfræðilegar upplýsingar og úrvinnsla fréttarinnar var athyglisverð.

Það virðist einkum vera tvennt sem gerir þetta að verkum. 1. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, fyrir mitt leyti allaveganna, er svífandi móðins að fara í viðskiptafræði. Um eða yfir 600 manns, ég endurtek SEXHUNDRUÐ MANNS, byrja í viðskiptafræði í HÍ undanfarin ár. Þetta er bara rugl. Sem betur fer gefast um 55% þeirra upp fljótlega, af mörgum skiljanlegum ástæðum. Einnig er allnokkur fjöldi í svipuðu námi í HR. 2. Herra X (man ekkert hva hann heitir) skólastjóri Samvinnuskólans á Bifröst..nei sorry Viðskiptaháskólans á Bifröst, ætlar sér með tíð og tíma að flytja höfuðborg landsins til Bifrastar ef svo má segja. Hann mun byggja gaddavírsgirðingar og allskyns aðskilnaðarmúra á milli sauðsvarts almúgans og þeirra sem hafa viðskiptafræðipróf. Hans lokamarkmið er að laða flestalla eða alla landsmenn til Bifrastar og útskrifa helst alla sem háttstemmda viðskiptafræðinga...

...góð hugmynd en hann klikkar bara á einu...það vantar fólk til að svindla á!

Að lokum vil ég benda á að ég vona svo sannarlega að það skapist jafnvægi í þessu og menn hlaupi ekki allir í viðskiptafræði hugsunarlaust eins og hlandsprengdar tófur. Það er engum til ánægju að framleiða oflærða og ergilega gjaldkera..

Bless!

 
Thursday, March 25, 2004
  Halló!

Um fjallaklifur og guðdómleika

Við erum í raun aðeins sandkorn í fjöru eilífðarinnar. Auðvitað vilja öll kornin koma sér vel fyrir í fjörunni, skapa sér sitt svæði. Allir vilja koma sér á góðan stað með gott útsýni. Það vilja öll klífa upp.

Þetta er eins og fjallaklifur nema hvað að áhuginn er almennari. Það er svo auðvitað spurning hversu djarft skal telft. Þetta er alltaf spurning um viðmið...

Sumir vilja ná ansi hátt og beita öllum brögðum til að verða aðalsandkornið. Held að draumur margra slíkra sé að ná að hefja sig uppí annað veldi og getað svimað yfir allri fjörunni eins og kría.

Eitt sinn skal nu hvur deyja..þannig er það nú bara. Þú verður að dufti og annað korn er komið í þinn stað. Stundum þegar maður einfaldar þá flækir maður hlutina..og öfugt. En kannski má leggja einhvern skilning í þetta...

Bless!  
Tuesday, March 23, 2004
  Halló!

Heyrði brandara í dag...

Margir brandarar eru lygi...tóm þvæla bara. Þessi brandari er það því miður ekki. Sumir brandarar eru fyndnir..þessi var heldur ekkert sérstaklega fyndinn..en leynir þó á sér svona ef maður veltir því svolítið fyrir sér...

Brandarinn átti sér stað á bókasafni dauðans, sem er háskólabókasafnið...stóri rauði hlunkurinn þarna vestur í bæ...svona fyrir óglögga. Brandarinn er sá að ekki er lengur hægt, á virtasta bókasafni landsins, að útbúa, eða láta útbúa fyrir sig glærur!!! Hæstvirtir nemendur háskólans þurfa því að slíta skónum með því að labba útí prentgarð vestur á seltjarnarnes. Að vísu fær maður þá í kaupbæti ferskt loft og veit ég um góðan mann sem telur það mikinn kost fyrir námsmenn...

Spara, spara, spara. Þýðir ekkert annað. Hugsa að það sé skynsamlegt fyrir bókasafn dauðans að hætta að hafa bækur þarna...bara rugl og vesen...ekkert að græða á því að halda við einhverjum rotnandi bókum í bunkum. Kannski hægt að byrja rólega sko og losa sig fyrst við einhver helvítis tímarit... ÉG hugsa að nemendur verði hæstánægðir með þessar sparnaðaraðgerðir..maður getur þá mætt niðrá hlöðu (bókasafn dauðans fyrrv.) og chillað bara í manager eða eitthva...maulað svo nestið sitt í rólegheitum ef illa gengur eða maður er orðinn sybbinn sér eftir erfitt tímabil ("síson").

Spurning hvað skal gera við allt hilluplássið? Einhverjar hugmyndir??

Bless! 
Tuesday, March 16, 2004
  Halló!

Um andlega líðan Íslendinga

Nýjustu rannsóknir sýna að Íslendingar eru talsvert í því að drepa sig. Einnig að vera þunglyndir, stressaðir, kvíðnir, vera með magasár og fleira í þeim dúr. Færri eru í því að láta sér líða vel, ""chilla"" bara á því og sonna...

Þessar niðurstöður rannsókna koma mér bara nákvæmlega ekki neitt á óvart. ENGAN VEGINN. Ég er hreinlega hissa á því að niðurstöðurnar skyldu ekki vera mikið verri...kannski voru bara ekki allir sem voru að segja satt. Mig grunar að allmargir séu t.d. þunglyndir en annað hvort viðurkenna það ekki eða gera sér hreinlega ekki almennilega grein fyrir því.

Ástæðan fyrir dapurri andlegri líðan margra má m.a. rekja til hugsunarháttarins sem ríkir í dag. Það ætla allir að verða ríkir, allir ætla að eiga svona rosabíl..og svona sófasett...blabla...semsagt lífsgæðakapphlaupið.

Ég sagðist vera hissa á því að niðurstöðurnar væru ekki verri hér á Íslandi. Ástæðan er sú að enn lifa góðu lífi vinnuhefðir Íslendinga. Enn gæti maður átt það á hættu að vera kallaður aumingi ef maður hefur ekki áhuga á því að vinna svona cirka 72-78 tíma vinnuviku (t.d. frá mánud. til laugard.) - jafnvel meira. Þessar hugmyndir styðja það að vinna mikið til þess að vera nú ekki alveg útá þekju í lífsgæðakapphlaupinu. Það má því jafnvel ganga svo langt að segja að það sætir undrum að Íslendingum skuli vera enn að fjölga...að okkur skuli ekki hreinlega vera að fækka vegna sjálfsmorða og þunglyndis (þunglyndi leiðir til þess að fólk hefur ekki áhuga á því að eiga í mökum, svona ef þið vissuð það ekki)!!

Þessar vinnuhefðir og þetta lífsgæðakapphlaup er bara GRÍN í mínum augum..bara kjaftæði. Ég er rosalega ánægður, jafnvel hreinlega stoltur af því að hafa gert mér grein fyrir þessu rugli og reyni ég að sjálfsögðu að forðast það. Sumir mundu vara mig við að fara ekki útí hinar öfgarnar...ég reyni að passa það...ég er t.d. langt kominn í háskólanámi og stefni að sjálfsögðu á að standa mig vel í vinnu í framtíðinni þrátt fyrir "vitrun" mína varðandi lífsgæðakapphlaupið...

Heildina á litið hlakka ég til þeirra fjölmörgu kvölda þar sem ég er kominn heim úr vinnunni fyrir nokkru, sit fyrir framan hæfilega stórt sjónvarpið mitt í hæfilega ágæta sófanum mínum - hugsanlega með einn öl í annarri hendinni - meðan nágranninn er enn sveittur og pirraður í vinnunni og stefnir á að kaupa sér stærra sjónvarp...þó hann megi reyndar aldrei vera að því að horfa á sjónvarp...

Bless! 
Monday, March 15, 2004
  Halló!

Horfir til vandræða í Ísrael og Palestínu!
Eins og glöggir hafa tekið eftir horfir ástandið í Ísrael og Palestínu til vandræða. Palestínumegin ber á svo mikilli blýeitrun að jafnvel dauðsföll hafa hlotist af. Svo mikið blý hefur safnast upp á sumum stöðum að vegatálmar hafa myndast hér og þar. Hefur það m.a. orsakað vinnuröskun og þar með tekjumissi þeirra 10% palestínumanna sem hafa vinnu... Einnig hefur einn og einn ísraelskur skriðdreki, sem í einhverju bríeríi hefur slæðst inná land palestínu, gefist þar upp – einkum vegna vélarbilunar – og standa þessir drekar þar því eins og illa gerðir hlutir öllum til ama. Hef ég heyrt frá palestínumönnum að mikil sjónmengun stafi af þessum drekum – einkum vegna þess hvursu ljótir þeir eru á litinn. Einnig er engin von til annars en þeir koðni niður með tímanum og valdi allnokkurri mengun. Að lokum má benda á að nokkuð ber á palestínskum líkum á víð og dreif palestínumegin við landamærin. Eru það einstaklingar (börn, konur og menn..sittlítið af hvoru) sem látist hafa af “snarblýeitrun”. Segja kunnugir að menn falla bara eins og skotnir úr slíkri pest. Reyna menn eftir bestu getu að forðast þessi pestargemlingalík. Erlendu fólki, einkum blaðamönnum, er bent á að halda sig fjarri, enda blýmótstöðuafl útlendinga í lágmarki.

Ísraelsmegin er ástandið afar alvarlegt. Ber á snarhækkandi grjóthaugum á víð og dreif við landamærin. Samkvæmt áræðanlegum heimildum bera palestínumenn ábyrgð á þessum voðaverkum. Hefur frést að afar móðins þykir, palestínumegin, að grýta grjóti eins langt og hendur toga yfir til Ísraels. Þykir Ísraelsmönnum þetta bera vott um uppeldisleysi hjá nágrönnum sínum og hafa gert ýmsar tilraunir til að skilyrða nágrannanna til betri hegðunar. Af ókunnum ástæðum virðast þær tilraunir aðeins skila sér í enn meiru grjótkasti af hendi palestínumanna. Er ástandið jafnvel orðið svo alvarlegt að einn og einn saklaus ísraelskur hermaður fær grjóthnullung í höfuðið. Hefur þetta gert það að verkum að ísraelskir hermenn geta ekki tekið af sér hjálmana af og til óhultir, til að forðast óþægilega svitamyndun á kolli þeirra á heitustu og sólríkustu dögum ársins.
Enn er ótalinn sá hryllingur sem hið ógurlega magn af grjóti veldur, er safnast hefur upp í Ísrael. Ísraelsmenn hafa ekkert við allt þetta grjót að gera og er það svo sannarlega aðeins fyrir og veldur sjónmengun. Einnig hafa saklausir borgarar hnotið um verstu hnullungana og þá snúið sig gjarnan illa. Allt þetta grjót hefur jafnvel valdið dauðsföllum...þó ég kunni ekki að segja nánar frá því.

Samkvæmt bærilegum heimildum hafa svo Ísraelsmenn gert guðdómlega tilraun til að leysa vandann. Hafa þeir nú byggt vegg einn mikinn, og til verksins notuðu þeir að hluta til palestínska grjótið sem safnast hefur upp í Ísrael. Veggurinn átti að verja höfuð hermanna fyrir grjótkasti – hvorki palestínumaður né grjót átti að geta komist yfir vegginn. Palestínumenn virðast hinsvegar einhverra hluta vegna ekki vera mjög hrifnir af þessum vegg og virðast frekar tvíeflast við grjótkastið ef eitthvað er.

Jamm og já ekki er það fallegt. Ekki er skrítið að svoleiðis eiturgusurnar ganga manna á milli þarna í Palestínu og Ísrael. Ég skal ekki segja hvenær þessu ófremdarástandi líkur, en vitna ég nú í háttsettann Ísraelskan ráðamann sem var að lesa í herbók um afvopnun óvinarins; “Sennilega njótum við, guðsútvalda þjóðin, ekki friðar fyrr en allt grjót á Vesturbakkanum og Gaza verður uppurið”.

Bless!
 
Monday, March 01, 2004
  Halló!

Mótmæli harðlega leikskólastefnunni!

Það virðist vera skráð í stefnuskrá leikskólanna að vera skal á sífelldu flakki með krakkarassgötin útum alla borg og sveitir. Maður er kannski blásaklaus í strætó að velta fyrir sér háalvarlegum og merkilegum hlutum þegar allt fyllist af æpandi leikskólabörnum. Menningarlegar fyrirveltingar fara þá eðlilega fyrir bý eins og hendi væri veifað og aðrar og óæðri kenndir vilja brjótast fram. Mann langar til þess að grípa til örþrifaráða og bjarga strætógestum frá þessari skelfingu...en sem betur fer hef ég ekki enn haft mig í það...

Ég mótmæli þessari "barnaflakkstefnu" harðlega. Mig grunar nefnilega að það styðji hana í raun enginn. Fóstrurnar hljóta að verða lifandi fegnar ef þær þurfa ekki að drösla her af börnum úr og í strætó dag eftir dag...börnin eru svífandi öskuvond yfir því að vera rifin frá rólunum eða dúkkunni eða he-man kallinum og æpa því úr sér líftóruna í strætó af pirringi..og strætógestir væru örugglega til í það að geta hugsað sitt í friði..eða bara fengið að vera í friði...

Þessi stefna er auðvitað alveg gegn því sem hún ætti að vera. Auðvitað ætti að setja menn í það að þróa frystiklefa sem börnin eru geymd í til 14-15 ára aldurs. Þá er hægt að affrysta og nota þau eitthvað. Auðvitað þarf að tölvutengja frystu börnin og raða einhverjum fróðleik í hausinn á þeim og sonna...það er allt hægt...

Bless! 
Ég hefir ákveðið að taka þátt í blogg-bólunni miklu. Gott ef ég fer ekki og versla mér dísel-gallabuxur og það skítugar á morgun. Ég ráðlegg öllum að lesa ekki þetta blogg, enda verður það vafalítið hundleiðinlegt og neikvætt..eða svo munu grænu kallarnir vafalaust segja...

TENGLAR
Konni B.
Guðni hinn Græni
Guðni hinn Rauði
Risinn á í mökum við hús
Diddzerinn brósi
Skítkast frá Hjalla snillíngi
Jói varpar ljósi á allt og alla
Sjóræninginn Mr.Jones
Sá betri!
Baldur bloggar!


ARCHIVES
01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 /


Powered by Blogger Weblog Commenting by HaloScan.com