<$BlogRSDURL$>
Hnignunarspegill mannkyns
Tuesday, March 15, 2005
  Halló!

Nenni

Diddzer brósi aka múkall eins og hann kallar sig bjó til orð, eða hefur a.m.k. komið því á kortið. Þetta orð er ,,nenni”. Málfræðilega séð er þetta einfaldlega nafnorð sem dregið er af sagnorði. Til samanburðar má finna ýmis dæmi, s.s. nafnorðið ,,labb” dregið af sögninni ,,að labba”.

,,Nenni” er hvorukynsorð, það nennið, og beygist væntanlega; hér er nenni um nenni frá nenni til nennis, sbr. hvk.-orðið ,,enni”. Fleirtölubeyging; hér eru nenni um nenni frá nennum til nenna.

Þetta er mjög sniðugt orð.

Samkvæmt Diddzer kostar flestallt nenni og þegar öll nenni eru uppurin nennir maður eðli málsins samkvæmt ekki að gera neitt sem kostar nenni. Skiljanlegt, augljóst og í fullu samræmi við sögnina ekki satt?

Skilgreining á nenni: Það er hins vegar dulítið erfitt að skilgreina nenni og er ástæða þess afar augljós. Nenni er nefnilega eins konar andlegur gjaldmiðill. Hér er hugmynd að skilgreiningu:

,,Nenni er eins og peningur og allt sem kostar eitthvað kallar á fjárútlát. Duttlungar mannsandans geta hins vegar gjaldfellt það sem þarf að ,,kaupa” með nennum af hinum ýmsustu og jafnvel ótrúlegustu ástæðum. Einnig geta nenni vaxið ört á trjágreinum mannshugans við rétt skilyrði, jafnvel án þess að maður átti sig á því hvað hafi breyst”.

Menn eru að eðlisfari afar mis-ríkir af nennum. Þeir sem eru ríkir af nennum hafa hingað til verið kallaðir ,,duglegir”. Þetta gæti breyst í tímans rás: ,,Jón var afar sterkur og handlaginn maður og ekki skemmdi fyrir að hann virtist búa yfir endalausum sjóði af nennum....”.

Nenni eru þó ekki svona auðskiljanleg. Það er nefnilega ansi margt sem þarf að hafa í huga í allri umræðu um nenni. Það skiptir nefnilega alveg gríðarlega miklu máli í hverju maður ætlar að fjárfesta með nennum sínum og hvaða einstaklingur á í hlut. Fyrir mig kostar það t.a.m. GRÍÐARLEGA upphæð af nennum að gera skattaskýrsluna mína. Fyrir aðra kostar það hins vegar e.t.v. bara nokkur nenni (t.d. fyrir viðskiptafræðinga?).

Það er svo ekki full-rannsakað hvernig maður öðlast nenni. Eins og áður var minnst á fæðast menn með mis-mikið af nennum eða kannski réttara sagt endurhlaða nenni sín mis-hratt. Það eina sem ég tel víst í þessu samhengi er það að nenni safnast oft allnokkuð upp í svefni...eða er það ekki?

Sennilega er best að fara að sofa og vonandi vakna ég á morgun með ,,fulla vasa af nennum” fyrir morgundaginn – ekki veitir af, skattaskýrslan bíður.

Bless! 
Wednesday, March 02, 2005
  Dónalegur pistill. Stórfelld móðgun við landsbyggðina. Hræsni. Slæleg vinnubrögð.

Halló!

Titill pistilsins að þessu sinni gæti verið mun lengri, en þetta er e.t.v. orðið gott?

Ég legg ekki í vana minn að ráðleggja fólki að lesa slæma texta. Nú geri ég undantekningu. Ég ráðlegg öllum sem vettlingi geta valdið að lesa bakþanka Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur í Fréttablaðinu 13. febrúar.

Pistill hennar ber yfirskriftina ,,Minnihlutinn ræður”. Svo við ljúkum því af er vissulega hægt að benda á ýmislegt sem virðist snúa á þann veginn. Nærtækt dæmi er fylgislausi flokkurinn, öðru nafni Framsóknarflokkurinn. Hins vegar hefur hann hlotið, að mestu leyti verðskuldað, viðurnefnið ,,hundur Sjálfstæðisflokksins”.

En aftur að greininni. Málaflutningur Þorbjargar er vægast sagt undarlegur. Hún bendir á að Idol-þátturinn sé byggðapólitík og þess vegna vegni landsbyggðarfólkinu svo vel. Ja...í eina þættinum sem ég varð fyrir því óláni að horfa á féll skagamær úr keppni. Mér skilst að mikið hafi verið rætt um það að allur skaginn (sem er nb. nokkuð stór miðað við mörg önnur pláss) hafi stutt hana. Þessir allir hafa sennilega verið inneignarlausir...?

Þorbjörg grípur til orðsins sveit og heldur því fram að hjarta fólksins þar slái örar við það að sjá syni/dætur hennar slá í gegn í borginni! Hvers konar dónaskapur er þetta?? Er Akraneskaupstaður, t.a.m., SVEIT?? 6000 manna bær? Hvers konar málaflutningur er þetta? Hún segir að Reykvíkingum sé eytt markvisst úr keppninni og segir; ,,Grimmustu örlög keppenda virðast vera þau að vera hæfileikafólk úr höfuðborginni”. Ja, e.t.v. er það túlkun, en alls ekki oftúlkun, að skilja þessa setningu sem svo að allir/margir Reykvíkingar sem voru í keppninni hafi sannarlega verið mikið hæfileikafólk. Þeir hafi svo fallið úr keppni í stað laglausra sveitamanna í stígvélum sem syngja eins og Gísli Einarsson á þorrablóti.

Það kastar svo tólfunum og ber í bakkafullann lækinn þegar hún segir Idol-keppnina endurspegla íslenskt stjórnmálalíf (sem hún gerir að vísu í upphafi greinar en útlistar svo síðar). Fyrir það fyrsta veit ég ekki til þess að Idiot-keppnin endurspegli nokkurn skapaðan hlut nema þá e.t.v. hinn fáránlega poppbransa. Látum það liggja á milli hluta. ,,Landsbyggðin heldur borginni í heljargreipum hvort sem það er í söngkeppnum eða stjórnmálum.” ,,Borgarbúar vita sem er að þó að örfáir þingmenn styðji milljarða jarðgöng til fámennra byggðarlaga þá koma göngin nú samt”. HVAÐ Í ANDSKOTANUM ERTU EIGINLEGA AÐ SEGJA KONA?

Hún segir flesta Reykvíkinga vilja flugvöllinn burt. Hvað kemur það landsbyggðarfólki við? Ég veit ekki til þess að sveitarstjórnin á Raufarhöfn hafi mikið með það að gera, eða hvað?? Hún heldur áfram og segir almenning vilja lægri matarreikning. Þar ratast henni nú satt orð á munn. En bíddu við; ,,..en sveitarómantík minnihlutans sér til þess að svo verði ekki.” HA? Mig rekur ekki minni til þess að hafa heyrt nokkurn mann á landsbyggðinni kvarta yfir of lágu matvöruverði. Ekki hef ég heldur heyrt neinn af landsbyggðinni kvarta undan því hversu stutt þeir þurfa að fara til að versla í matinn (sumir þurfa að fara í næsta byggðalag til að sækja nauðþurftir)!

Það keyrir svo endanlega um þverbak í lok greinar hennar. Ég get ekki annað en komið með það hérna; ,,Idol-keppnin hefur sýnt það og sannað að dreifbýlisbúar þurfa ekki margfalt akvæðavægi á við borgarbúa. Landbyggðarfólk er í eðli sínu sigurvegarar. Það fær sínu fram hvort sem um er að ræða jarðgöng eða Idol”. Hér á hún við að landsbyggðin fær allt, nær sínu fram, jafnvel þó svo að hún hafi ekki margfalt atkvæðavægi. Þetta er athyglisverður punktur, við skulum * merkja hann. ,,Kosningareglur gera atkvæði manna misverðmæt. Svo er aftur á móti ekki í Idol, en landsbyggðin kýs þá bara oftar”. HA? Kýs oftar? Hvað meinar þú elsku Þorbjörg mín? Kýs landsbyggðafólk oftar en Reykvíkingar? Áttu við að landsbyggðin kunni betur á símann sinn eða hvað? Þetta er alveg óskiljanleg röksemd. ,,Og borgin bölvar í hljóði”. Bölvar þá því að kunna svona illa á síma?? Eða...?? Gerðu þig skiljanlega væna mín.

* Já landsbyggðin fær allt, nær sínu fram, enda sigurvegarar! Mér þætti afar skemmtilegt að heyra hæstvirta frú greina frá því hvað þetta allt er sem landsbyggðin nær fram. Meiri þjónustu? Kannski vaxandi fólksfjölda og þar af leiðandi fjölbreytilegu og skemmtilegu mannlífi? Lægra vöruverði? Fjölbreyttari verslunum og skemmtistöðum? Meira vöruúrvali? Eru e.t.v. fjölbreyttari stofnanir en í Rvík, svo sem hjúkrunar- eða menntastofnanir? Fjölbreyttari, áhugaverðari og betur borgaðri störf? Og kannski meira atvinnuöryggi? Betri sundlaugar eða íþróttahús? Hæfari kennarar? Alveg örugglega verðmætari fasteignir kannski, er það málið Þorbjörg??

Þessar spurningar hér að ofan eiga, eins og heilbrigt fólk ætti að vita, fyllilega rétt á sér. Ekki svo að skilja að allt eigi við hvern einasta bæ út á landi (Borgnesingar eiga t.d. góða sundlaug). Flutningur Landmælinga Íslands upp á skipaskaga er eitt örfárra dæma síðustu ára um það að landsbyggðin hafi fengið eitthvað. Ekki man ég betur en að Reykvíkingar hafi bölvað svo hátt í hljóði yfir því að það barst mér til eyrna í mörg ár. Einnig mætti e.t.v. benda á að vegir landsins og samgöngur hafa skánað allnokkuð. Ég vil benda hæstvirti frú á það að vegaframkvæmdir og þar á meðal gangnagerð er enginn hégómi eða lúxus í ætt við kristalsbollasett. Það er einfaldlega tilraun til þess að halda byggð í landinu! Svo ekki sé minnst á mannslífin sem eru í húfi, en það er kannski aukaatriði?

Ég lýsi yfir andstyggð minni á svona málaflutningi og vona að Fréttablaðið sjái sér fært að birta ekki svona lagað aftur. Það er hreint og beint sorglegt að lesa aðra eins vitleysu og þvælu í útbreiddasta blaði landsins! Þetta er reginhneyksli!

Að lokum vil ég benda hæstvirtri Þorbjörgu á að e.t.v. væri henni hollt að velja sér lítið eitt menningarlegra sjónvarpsefni en blessaðan popp-idiot-þáttinn. Þá gæti hún hugsanlega sett saman pistla sem innihalda meira vit - minna bull og þvaður!

Bless! 
Ég hefir ákveðið að taka þátt í blogg-bólunni miklu. Gott ef ég fer ekki og versla mér dísel-gallabuxur og það skítugar á morgun. Ég ráðlegg öllum að lesa ekki þetta blogg, enda verður það vafalítið hundleiðinlegt og neikvætt..eða svo munu grænu kallarnir vafalaust segja...

TENGLAR
Konni B.
Guðni hinn Græni
Guðni hinn Rauði
Risinn á í mökum við hús
Diddzerinn brósi
Skítkast frá Hjalla snillíngi
Jói varpar ljósi á allt og alla
Sjóræninginn Mr.Jones
Sá betri!
Baldur bloggar!


ARCHIVES
01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 /


Powered by Blogger Weblog Commenting by HaloScan.com